Hættur með landsliðinu

Luis Suárez skýrir frá ákvörðun sinni á fréttamannafundi í Montevideo.
Luis Suárez skýrir frá ákvörðun sinni á fréttamannafundi í Montevideo. AFP/Eitan Abramovich

Úrúgvæski knattspyrnumaðurinn Luis Suárez tilkynnti í gærkvöld að hann hefði leikið sinn síðasta landsleik fyrir þjóð sína.

Kveðjuleikurinn var því leikur Úrúgvæ og Kanada um bronsverðlaunin í Ameríkubikarnum í sumar en þar tryggði Suárez úrúgvæska liðinu vítaspyrnukeppni með því að jafna, 2:2, í uppbótartíma. Hann skoraði síðan í vítakeppninni og Úrúgvæ krækti í bronsið.

Suárez er einn af bestu knattspyrnumönnum sögunnar í Úrúgvæ en hann skoraði 69 mörk í 142 landsleikjum og er markahæsti leikmaður landsliðsins frá upphafi og sá næstleikjahæsti. Með landsliðinu vann hann m.a. Ameríkubikarinn árið 2011.

Suárez er 37 ára gamall og leikur nú með Inter Miami í Bandaríkjunum en spilaði m.a. með Ajax, Liverpool, Barcelona og Atlético Madrid á sextán ára ferli sínum í Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert