Markvörður mótherja Íslands lést í júní

Matija Sarkic.
Matija Sarkic. AFP/Håkon Mosvold

Karlalandslið Svartfjallalands í knattspyrnu, sem mætir Íslandi í Þjóðadeildinni á  Laugardalsvellinum á föstudagskvöldið, varð fyrir gríðarlegu áfalli í júní.

Þá lést Matija Sarkic, hinn 26 ára gamli markvörður Millwall á Englandi, þegar hann fékk skyndilega hjartaáfall í sumarfríi sínu í svartfellska sumarleyfisbænum Budva.

Tíu dögum áður var Sarkic maður leiksins þegar Svartfjallaland tapaði 2:0 fyrir Belgíu í vináttulandsleik og reiknað var með honum sem aðalmarkverði liðsins í leikjunum í Þjóðadeildinni í haust, sem og í næstu undankeppni HM.

Íþróttafréttamaðurinn Vladimir Novak birtir ítarlega grein um lið Svartfjallalands í Morgunblaðinu í dag og segir þar meðal annars:

„Á heimaleiknum gegn Wales næsta mánudag verður einnar mínútu þögn, eða einnar mínútu klapp, til heiðurs Matija Sarkic. Ég þekki ekki reglur UEFA um slíkt en það yrði fallega gert af Knattspyrnusambandi Íslands ef það hefði mínútu þögn til heiðurs Matija Sarkic á Laugardalsvellinum á föstudagskvöldið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert