Valdi peningana og ekki valinn í landsliðið

Steven Bergwijn í leik með Hollandi gegn Tyrklandi á EM …
Steven Bergwijn í leik með Hollandi gegn Tyrklandi á EM í Þýskalandi í sumar. AFP/John MacDougall

Ronald Koeman, þjálfari hollenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir að ekki komi til greina að velja Steven Bergwijn í landsliðið í kjölfar þess að hann samdi við Al Ittihad í Sádi-Arabíu.

Bergwijn er aðeins 26 ára gamall og hefur leikið með Ajax undanfarin tvö ár en áður með Tottenham og PSV Eindhoven. Hann hefur skorað átta mörk í 35 landsleikjum fyrir Holland og hefur leikið þrjá landsleiki á þessu ári.

„Hann hefur nánast lokað dyrunum á eftir sér og veit vel hver mín afstaða er. Þegar þú ert 26 ára gamall á íþróttin að vera í fyrsta sæti en ekki peningarnir. Þetta er ákvörðun sem leikmaðurinn tók sjálfur. Hann hefði getað verið áfram hjá Ajax sem hefði ekki verið slæmt. Maður verður að virða hans ákvörðun en sjálfur hefði ég aldrei gert þetta," sagði Koeman, samkvæmt The Athletic, en hann býr hollenska liðið undir leiki gegn Bosníu og Þýskalandi í Þjóðadeildinni á laugardag og þriðjudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert