Vill halda íslenska landsliðsmanninum

Mikael Anderson er í íslenska landsliðinu sem mætir Svartfjallalandi á …
Mikael Anderson er í íslenska landsliðinu sem mætir Svartfjallalandi á Laugardalsvellinum á föstudaginn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stig Inge Björnebye, íþróttastjóri danska knattspyrnufélagsins AGF og fyrrverandi leikmaður  Liverpool, vonast til þess að halda íslenska landsliðsmanninum Mikael Anderson lengur hjá félaginu.

Mikael hefur leikið afar vel með AGF, bæði á síðasta tímabili og í fyrstu umferðunum á nýju tímabili, og hefur ítrekað verið orðaður við sölu frá félaginu. Hann er þó enn í röðum AGF eftir að félagaskiptaglugganum var lokað í flestum löndum um síðustu helgi.

„Af ýmsum ástæðum hefur verið mikið talað og skrifað um Mikael í fjölmiðlum í síðustu félagaskiptagluggum," sagði Björnebye við Tipsbladet, en AGF keypti Mikael af Midtjylland fyrir 15 milljónir danskra króna sumarið 2021.

Mikael ólst upp hjá AGF þegar hann var ellefu til fimmtán ára gamall og hann á tvö ár eftir af samningi sínum við félagið.

Björnebye vonast til að halda honum lengur. „Það þarf tvo aðila til að framlengja samning. Við viljum gjarnan framlengja samninginn við Mikael, og höfum átt góðar viðræður um það. Sjáum svo til hverju það skilar. Ef ég og AGF fengjum að ráða væri málið einfalt en báðir aðilar þurfa að vera sáttir," sagði Björnebye.

Hann segir að Mikael hafi áhuga og metnað fyrir því að leika með stærra félagi.

„Við vitum allir að Mikael dreymir um að komast í stærra félag og sterkari deild á næstu árum, en við viljum gjarnan hafa metnaðarfulla leikmenn í okkar röðum. Það er best að vera með leikmenn sem setja markið hátt," sagði Norðmaðurinn Stig Inge Björnebye sem lék með Liverpool í átta ár, frá 1992 til 2000, og 75 landsleiki fyrir Noreg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert