Óvænt úrslit á Kópavogsvelli

Claudia Neto fagnar marki sínu á Kópavogsvelli.
Claudia Neto fagnar marki sínu á Kópavogsvelli. mbl.is/Eyþór Árnason

Breiðablik mætir Sporting Lissabon frá Portúgal í úrslitaleik 1. umferðar Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu, takist liðinu að leggja Minsk frá Hvíta-Rússlandi að velli í undanúrslitum 1. umferðarinnar á Kópavogsvelli í kvöld klukkan 19.

Sporting hafði betur gegn Eintracht Frankfurt frá Þýskalandi á Kópavogsvelli í dag, 2:0, en Claudia Neto kom Sporting yfir strax á 14. mínútu.

Ana Borges innsiglaði svo sigur Sporting í uppbótartíma með marki eftir hornspyrnu en leikmenn Eintracht Frankfurt voru þá allir á vallarhelmingi Sporting þar sem þeir freistuðu þess að jafna metin.

Úrslit 1. umferðarinnar fara fram á Kópavogsvelli á laugardaginn kemur. Sigurvegarinn í leiknum tryggir sér sæti í 2. umferð keppninnar, þar sem leikið verður heima og að heiman, og tryggir sigurvegarinn úr því einvígi sér sæti í riðlakeppninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert