Sá eftirsótti kominn til Tyrklands

Victor Osimhen leikur í Tyrklandi í vetur.
Victor Osimhen leikur í Tyrklandi í vetur. AFP/Filippo Monteforte

Eftir að hafa verið orðaður við flest stórlið Evrópu er nígeríski knattspyrnumaðurinn Victor Osimhen farinn frá Napoli í láni til Galatasaray í Tyrklandi.

Tyrkirnir hafa engan forkaupsrétt eða skyldu á að kaupa hann að tímabilinu loknu.

Samningur framherjans við Napoli var um leið framlengdur til ársins 2027 og sett í hann nýtt ákvæði um að greiða þurfi 75 milljónir evra til að losa hann undan samningnum.

Osimhen, sem er 25 ára gamall, hefur skorað 65 mörk í 108 leikjum fyrir Napoli í ítölsku A-deildinni undanfarin fjögur ár og varð markakóngur deildarinnar tímabilið 2022-23 með 26 mörk, þegar Napoli varð ítalskur meistari í fyrsta sinn í 33 ár.

Lengi vel virtist Osimhen vera á leið til Chelsea eða París SG í lok ágúst en síðan benti allt til þess að Osimhen færi til Al Ahli í Sádi-Arabíu á lokadegi félagaskiptanna, 30. ágúst. Upp úr viðræðunum  slitnaði á síðustu stundu og í framhaldi af því var Osimhen settur út úr hópi Napoli fyrir tímabilið en félagið var þá þegar búið að fá Romelu Lukaku til að fylla í skarð hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert