„Kvennaboltinn verður ekki lagður niður“

Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, og Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar …
Haraldur Haraldsson, framkvæmdastjóri Víkings, og Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur. Ljósmynd/Aðsend

Haukur Guðberg Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur, segir það ekki standa til að leggja niður meistaraflokk kvenna þegar tímabili liðsins í 1. deild lýkur um helgina.

„Nei. Hann gæti verið með breyttu sniði en það er ekki komið í ljós. Kvennaboltinn verður ekki lagður niður. Það er bara á hreinu.

Við erum einungis að ræða næsta ár. Þetta er orðið ansi langt ferðalag hjá okkur þar sem við erum heimilislaus,“ sagði Haukur í samtali við mbl.is.

Spurður hvað mögulegt breytt snið meistaraflokks kvenna gæti falið í sér sagði hann:

„Það gæti til dæmis verið að kvennaliðið myndi sameinast öðru liði.“

Bætti Haukur því við að viðræður þess efnis væru farnar af stað.

Kvennaliðið í forgangi sem stendur

Karla- og kvennalið Grindavíkur leika bæði í 1. deild og hafa bæði tryggt sér áframhaldandi veru í deildinni á næsta tímabili. Leika þau heimaleiki sína í Safamýri þar sem ekki er hægt að spila í Grindavík.

Haukur sagði ekki byrjað að ræða hvernig framtíð karlaliðsins liti út í stjórn knattspyrnudeildar en að líkt og í tilfelli kvennaliðsins væri það ekki á dagskrá að leggja karlaliðið niður.

„Nei, ekki enn þá. Það er ekki komið í ljós. Við erum bara að einbeita okkur núna að meistaraflokki kvenna.

Svo kemur hitt í ljós. Við erum að láta þær ganga fyrir eins og staðan er núna,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert