Brasilía vann – Díaz bjargaði stigi

Luis Díaz fagnar marki sínu ásamt James Rodríguez.
Luis Díaz fagnar marki sínu ásamt James Rodríguez. AFP/Ernesto Benavídes

Brasilía vann Ekvador með minnsta mun, 1:0, þegar liðin mættust í undankeppni Suður-Ameríku fyrir HM 2026 í knattspyrnu karla í nótt. Perú og Kólumbía skildu þá jöfn, 1:1.

Rodrygo, sóknarmaður Real Madríd, reyndist hetja Brasilíu þegar hann skoraði sigurmarkið eftir hálftíma leik í Curitiba í Brasilíu í nótt.

Með sigrinum fór Brasilía upp í fjórða sæti undankeppninnar, sem gefur beint sæti á HM. Þar er liðið með tíu stig eftir sjö leiki í kjölfar brösugrar byrjunar.

Í Lima í Perú kom Alexander Callens heimamönnum yfir á 68. mínútu.

Luis Díaz, kantmaður Liverpool, jafnaði hins vegar metin fyrir Kólumbíu átta mínútum fyrir leikslok og þar við sat.

Perú er á botninum með aðeins þrjú stig en Kólumbía er í þriðja sæti með 13 stig.

Loks gerðu Úrúgvæ og Paragvæ markalaust jafntefli í Montevideo í Úrúgvæ.

Úrúgvæ er í öðru sæti með 14 stig og Paragvæ í sjöunda sæti með sex stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert