Á milli ÍBV og Fjölnis um toppsætið

Eyjamenn fagna marki í dag.
Eyjamenn fagna marki í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV og Fjölnir munu berjast um toppsætið í 1. deild karla í knattspyrnu í lokaumferðinni næstu helgi. 

ÍBV burstaði Grindavík, 6:0, í Vestmannaeyjum og Fjölnir vann sterkan sigur á Aftureldingu, 2:0, í Grafarvogi. 

ÍBV er í efsta sæti með 38 stig og mætir Leikni úr Reykjavík í Breiðholtinu í síðustu umferðinni. Fjölnir er með 37 stig og heimsækir Keflavík í síðustu umferðinni. Aðeins annað liðið fer beint upp í Bestu deildina. 

Keflavík er í þriðja sæti með 35 stig, ÍR er í fjórða sæti með 35, Afturelding í fimmta með 33 og Njarðvík í sjötta með 32. Þau lið munu berjast um að komast í umspilið. Afturelding og ÍR mætast í lokaumferðinni og Njarðvík heimsækir Grindavík. 

Keflavík og ÍR eru þá með mun verri markatölu en ÍBV og eru líkurnar nánast engar að þau lið geti farið beint upp. 

Sex mörk ÍBV

Grindavík átti ekki roð í ÍBV í Vestmannaeyjum en Eyjaliðið fór á kostum. 

Hermann Þór Ragnarsson og Bjarki Björn Gunnarsson skoruðu tvö mörk hvor fyrir ÍBV og Vicente Valor og Oliver Heiðarsson hvort markið fyrir sig. 

ÍBV er í bestu stöðunni fyrir síðustu umferðina og með örlögin í sínum höndum. Grindavík er örugg með 25 stig í níunda sæti. 

Fyrsti sigur Fjölnis í langan tíma

Fjölnir vann þá sterkan sigur á Aftureldingu, 2:0.

Fjölnisliðið hafði ekki unnið í sjö leikjum í röð en Afturelding hafði verið á siglingu. 

Mörk Fjölnis skoruðu Dagur Ingi Axelsson og Máni Austmann Hilmarsson. 

ÍR-ingar í stuði 

ÍR vann mikilvægan sigur á Gróttu, sem féll í leiðinni, 2:1.

Renato Punyed Dubon og Bragi Karl Bjarkason skoruðu mörk ÍR en Patrik Orri Pétursson skoraði mark Gróttu. 

Grótta er fallin en ÍR hefur gott tækifæri til að fara í umspilið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert