Norska liðið Rosenborg, með landsliðskonuna Selmu Sól Magnúsdóttur, tapaði naumlega fyrir enska liðinu Arsenal, 1:0, í úrslitaleik um sæti í 2. umferð Meistaradeildar kvenna í fótbolta í gærkvöld.
Leikið var á heimavelli Arsenal í Borehamwood, rétt utan við London, að viðstöddum á fjórða þúsund áhorfendum. Norska landsliðskonan Frida Leonhardsen-Maanum skoraði sigurmarkið gegn löndum sínum strax á 19. mínútu.
Selma lék allan leikinn á miðjunni hjá Rosenborg.
Þrjú Íslendingalið komust áfram í 2. umferð keppninnar í gær. Alexandra Jóhannsdóttir og samherjar hennar í Fiorentina á Ítalíu unnu hollenska liðið Ajax 1:0, Sædís Rún Heiðarsdóttir var í liði Vålerenga frá Noregi sem vann Farul Constanta frá Rúmeníu, 3:1, og svo kom Amanda Andradóttir inn á hjá hollensku meisturunum Twente sem unnu Val örugglega í Enschede í Hollandi, 5:0.
Önnur lið sem komust áfram voru Vorskla Poltava frá Úkraínu, Celtic frá Skotlandi, Osijek frá Króatíu, Benfica frá Portúgal, París FC frá Frakklandi, St. Pölten frá Austurríki, Sporting frá Portúgal, Galatasaray frá Tyrklandi, Servette frá Sviss, Mura frá Slóveníu og Anderlecht frá Belgíu.
Dregið verður til 2. umferðar keppninnar á morgun. Þá mæta til leiks Wolfsburg frá Þýskalandi sem Sveindís Jane Jónsdóttir leikur með og önnur lið sem sátu hjá í 1. umferð en það voru Roma, Hammarby, Slavia Prag, París SG, Real Madrid, Manchester City, Juventus og Häcken.
Fjögur lið fara hins vegar beint í riðlakeppnina en það eru Barcelona, Lyon, Bayern München, sem Glódís Perla Viggósdóttir leikur með, og Chelsea.