Kólumbía tyllti sér í annað sæti undankeppni Suður-Ameríku fyrir HM 2026 í knattspyrnu karla með því að leggja heimsmeistara Argentínu að velli, 2:1, í Barranquilla í Kólumbíu í kvöld.
Kólumbía er nú með 16 stig, aðeins tveimur stigum á eftir toppliði Argentínu þegar bæði lið hafa spilað átta leiki.
Yerson Mosquera, miðvörður Wolverhampton Wanderers á Englandi, kom heimamönnum yfir á 25. mínútu með skalla af stuttu færi eftir góða fyrirgjöf James Rodríguez.
Staðan var 1:0 í hálfleik en snemma í síðari hálfleik jafnaði Nicolás González metin fyrir Argentínu.
Eftir klukkutíma leik fékk Kólumbía dæmda vítaspyrnu. Úr henni skoraði Rodríguez af öryggi og tryggði heimamönnum sterkan eins marks sigur.