Fyrrverandi íþróttastjóri færeyska knattspyrnuliðsins NSÍ, Eyðstein Skipanes, var úrskurðaður í þriggja ára bann frá afskiptum af fótbolta fyrir ofbeldi gegn fjórða dómara í leik NSÍ og KÍ Klaksvík í Runavík þann 28. júní.
Aga- og siðanefnd knattspyrnusambands Færeyja komst að þessari niðurstöðu en Eyðstein er gefið að sök að hafa í tvígang reynt að ráðast að dómurum leiksins eftir lokaflautið en gæslumenn hafi náð að stöðva hann inni á vellinum.
Þegar dómararnir gengu til búningsherbergja sat Eyðstein fyrir þeim og hljóp með öxlina á undan sér á fjórða dómarann. Eyðstein hæfði dómarann í bringuna með þeim afleiðingum að dómarinn datt.
Gæslan náði stjórn á íþróttastjóranum en hann má ekki mæta á leiki eða starfa innan knattspyrnuhreyfingarinnar þar til í árslok 2027. Að auki fékk NSÍ sekt upp á hundrað þúsund krónur fyrir hlut Eyðsteins og tvöhundruð þúsund aukalega fyrir hegðun leikmanna sem gerðu aðsúg að dómaranum í leikslok.
KÍ skoraði sigurmark leiksins á lokamínútunum í 2:1-sigri.