Verðum að gera betur

Kevin De Bruyne í leiknum í gærkvöldi.
Kevin De Bruyne í leiknum í gærkvöldi. AFP/Olivier Chassignole

Kevin De Bruyne, fyrirliði belgíska karlalandsliðsins í knattspyrnu og varafyrirliði Englandsmeistara Manchester City, var ekki par sáttur við frammistöðu Belgíu í 2:0-tapi fyrir Frakklandi í A-deild Þjóðadeildar Evrópu í gærkvöldi.

De Bruyne lét nokkur vel valin orð falla í búningsklefanum í hálfleik en vildi á fréttamannafundi eftir leik ekki segja hvað hann sagði.

„Ég get ekki endurtekið það í fjölmiðlum en við verðum að gera betur á öllum sviðum. Ef stigið sem við viljum komast á er það besta en við erum ekki lengur nógu góðir þá verðum við í það minnsta að leggja okkur alla fram.

Ef við gerum það ekki þá er þessu sjálfhætt,” sagði ósáttur De Bruyne og gagnrýndi svo leikstíl liðsins:

„Ef þú ert með sex leikmenn til baka þá myndast engin tenging við leikmenn framar á vellinum. Það er eins og það er.

Þetta snýst ekki um að snúa úr vörn í sókn heldur að leikmenn sinni ekki þeirri vinnu sem til er ætlast af þeim.“

Domenico Tedesco, landsliðsþjálfari Belgíu, var spurður út í þessi ummæli De Bruyne.

„Hann er fyrirliðinn okkar og er með svakalegt sigurhugarfar og því getur hann brugðist við á tilfinningaþrunginn hátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert