Heimir tjáir sig eftir töpin tvö

Heimir Hallgrímsson, þjálfari Írlands.
Heimir Hallgrímsson, þjálfari Írlands. AFP/Paul Faith

Heimir Hallgrímsson, þjálfari írska karlalandsliðsins í knattspyrnu, kveðst átta sig á því að verkefnið fram undan sé erfitt eftir að liðið tapaði 2:0 fyrir Grikklandi í B-deild Þjóðadeildar Evrópu í gærkvöldi.

Á laugardag tapaði Írland fyrir Englandi, einnig 2:0, og byrjun Eyjamannsins við stjórnvölinn hjá Írum því ekki verið sem best.

„Ég er satt að segja mjög tapsár. Ég hata að tapa. Hvað það varðar er ég ekki glaðasti maðurinn á Írlandi á þessari stundu og deili þeirri tilfinningu eflaust með mörgum stuðningsmönnum,“ sagði Heimir í samtali við The Irish News.

Írland hefur aðeins unnið tvo af 18 leikjum sínum í Þjóðadeildinni frá stofnun hennar. Liðið hefur þá einungis unnið tvo af síðustu tíu leikjum í öllum keppnum, báða gegn smáþjóðinni Gíbraltar.

Vegur of þungt

„Starf mitt felst í því að snúa þessu gengi við. Það sagði mér enginn að þetta yrði auðvelt. Ég veit að þetta mun taka tíma.

Mér finnst sem fyrstu skrefin hafi verið jákvæð þó við höfum tapað þessum tveimur leikjum,“ hélt hann áfram.

Heimir telur leikmenn Írlands ekki sýna sínar bestu hliðar þegar þeir spila fyrir landsliðið.

„Svo virðist sem það að klæðast treyjunni vegi of þungt fyrir suma leikmenn. Þegar þeir klæðast henni sýna þeir ekki sömu gæði og þeir gera kannski með félögum sínum þannig að við þurfum að breyta því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert