Kallaður Bobby í höfuðið á átrúnaðargoðinu

Endrick og Sir Bobby Charlton.
Endrick og Sir Bobby Charlton. Ljósmynd/Samsett

Rodrygo, leikmaður Real Madríd og brasilíska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segir Endrick liðsfélaga sinn hjá báðum liðum framvegis verða kallaðan Bobby.

Endrick, sem er aðeins 18 ára gamall, vakti athygli þegar hann var spurður í viðtali hvert átrúnaðargoð hans væri og svaraði að það væri Bobby Charlton, goðsögn Manchester United og enska landsliðsins.

Charlton hætti að spila nokkuð löngu fyrir tíð Endricks og féll frá fyrir tæpu ári síðan 86 ára að aldri.

Liðsfélagar Endricks hafa gaman að þessu óhefðbundna vali og sagði Rodrygo í samtali við ESPN:

„Hann er ekki lengur Endrick. Núna er hann Bobby, þannig er það.

Hann getur ekkert gert í því. Ef hann reiðist versnar þetta bara fyrir hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert