Tók United-manninn af velli til að vernda hann

Matthijs de Light skallar boltann í leik Hollands og Bosníu …
Matthijs de Light skallar boltann í leik Hollands og Bosníu og Hersegóvínu um síðustu helgi. AFP/Maurice van Steen

Ronald Koeman, þjálfari hollenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, segist hafa tekið miðvörðinn Matthijs de Ligt, leikmann Manchester United, af velli í hálfleik í jafntefli gegn Þýskalandi í gærkvöldi til þess að vernda hann.

De Ligt átti þátt í báðum mörkum Þýskalands í 2:2-jafntefli en staðan var 1:2 í hálfleik.

Hann átti slæma sendingu sem leiddi til fyrra marksins og náði ekki að hreinsa frá í öðru markinu þó félagar de Ligts í vörninni hefðu sannarlega allir getað gert betur í því tilfelli.

Í 5:2-sigri á Bosníu og Hersegóvínu gleymdi hann þá að dekka Edin Dzeko sem skoraði.

Auðvitað hefði ég viljað halda honum á vellinum. Svo virðist sem hann sé að upplifa tímabil þar sem öllum mistökum hans er refsað.

Ég gaf honum annað tækifæri í dag [í gærkvöldi] en að lokum ákvað ég að vernda hann með því að taka hann af velli,” sagði Koeman í samtali við hollensku sjónvarpsstöðina NOS.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert