Fer eftir því hvernig mál Alberts fer

Albert Guðmundsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Albert Guðmundsson í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. mbl.is/Iðunn

Daniele Pradè, yfirmaður íþróttamála hjá ítalska knattspyrnufélaginu Fiorentina, tjáði sig um hin ýmsu málefni félagsins á blaðamannafundi í dag. Á meðal þeirra var staða Alberts Guðmundssonar sem skipti yfir til Fiorentina frá Genoa í síðasta mánuði.

Albert var ákærður fyrir nauðgun 2. júlí síðastliðinn og hófst aðalmeðferð í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær og hélt áfram í dag. Albert mætti í dómsal í gær, en Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögfræðingur hans einn síns liðs í dag, án Alberts.

„Það var mjög erfitt að ganga frá félagaskiptum Alberts. Við byrjuðum í janúar og gengum loksins frá öllu mánuði fyrir lok félagaskiptagluggans,“ sagði Pradè. Hann var síðan spurður út í þá staðreynd að Albert hafi verið ákærður fyrir kynferðisbrot hér á landi.

„Það er ein ástæða þess að þetta tók svona langan tíma. Félagið er 100 prósent tryggt og það er lítil áhætta hjá okkur. Þetta er lán og annað hvort erum við skyldug til að kaupa hann eða ekki, það fer eftir því hvernig málið endar,“ sagði hann.

Fiorentina greiddi átta milljónir evra til að fá Albert lánaðan í eitt tímabil. Félagið frá Flórens þar svo að reiða fram um 20 milljónir evra til viðbótar til að fá hann alfarið til sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert