Landsliðskonurnar fóru á kostum í stórsigri

Katla Tryggvadóttir átti stórleik í dag.
Katla Tryggvadóttir átti stórleik í dag. Ljósmynd/Kristianstad

Íslendingalið Kristianstad vann sannfærandi sigur á AIK í sænsku úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í dag, 4:1.

Íslensku landsliðskonurnar Katla Tryggvadóttir, Hlín Eiríksdóttir og Guðný Árnadóttir voru allar í byrjunarliði Kristianstad í dag og komu þær mikið við sögu.

Kristianstad leiddi með tveimur mörkum gegn engu í hálfleik og skoruðu þær Carly Wickenheiser og Alice Nilsson mörkin en bæði komu þau eftir stoðsendingu frá Kötlu Tryggvadóttur.

Hlín Eiríksdóttir bætti við þriðja marki Kristianstad á 76. mínútu áður en Katla kórónaði frábæra frammistöðu sína með fjórða marki heimakvenna á þriðju mínútu uppbótartíma.

Guðný Árnadóttir lék fyrstu 85 mínútur leiksins.

Eftir sigurinn er Kristianstad í fjórða sæti deildarinnar með 36 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert