Freyr hafnaði bikarmeisturunum

Freyr Alexandersson gat ekki farið frá Kortrijk að eigin sögn.
Freyr Alexandersson gat ekki farið frá Kortrijk að eigin sögn. Ljósmynd/@kvkofficieel

Freyr Alexandersson, þjálfari karlaliðs Kortrijk í knattspyrnu, hefur greint frá því að Royale Union Saint Gilloise hafi reynt að fá hann til þess að taka við stjórnartaumunum hjá karlaliði sínu í sumar.

Freyr tók við Kortrijk í janúar á þessu ári og sá til þess að liðið bjargaði sæti sínu í belgísku A-deildinni með ótrúlegum hætti.

Union hafnaði á sama tíma í öðru sæti deildarinnar og varð belgískur bikarmeistari.

„Með fullri virðingu fyrir Union þá hentaði tímasetningin ekki. Ég gat ekki farið frá Kortrijk.

Union talaði mestmegnis við umboðsmanninn minn og af kurteisi ákvað ég að heyra hvað þeir hefðu upp á að bjóða en ég tjáði þeim þegar í stað að þetta væri ekki að fara að gerast,“ sagði Freyr í samtali við belgíska miðilinn HBvL.

Lögðu allt í sölurnar

Hann bætti því við að Union hefði lagt allt í sölurnar til þess að landa sér.

„Union var reiðubúið að gera allt sem til þurfti. Þeir sýndu af sér mikla fagmennsku en tímasetningin var einfaldlega ekki rétt.

Ég lofaði því að bjarga Kortrijk og koma á stöðugleika hjá félaginu. Ég hef ekki náð að efna síðarnefnda loforðið enn þá en félagið er samt alltaf að ná fram meiri og meiri stöðugleika.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka