Íslendingaliðið vann Hollywood-slaginn

Alfons Sampsted og Willum Þór Willumsson komu báðir við sögu …
Alfons Sampsted og Willum Þór Willumsson komu báðir við sögu hjá Birmingham í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslendingalið Birmingham City lagði Wrexham að velli, 3:1, í toppslag ensku C-deildarinnar í knattspyrnu karla í Birmingham í kvöld.

Tom Brady, fremsti leikstjórnandi í sögu NFL-deildarinnar í ruðningi, er minnihlutaeigandi Birmingham á meðan leikararnir Ryan Reynolds og Rob McElhenney eru eigendur Wrexham.

Brady og McElhenney voru mættir á St. Andrews-leikvanginn í Birmingham í kvöld. Með Brady í för voru svo David Beckham og synir hans Brooklyn og Romeo.

Willum Þór Willumsson lék allan leikinn fyrir Birmingham í kvöld og Alfons Sampsted kom inn á sem varamaður á 64. mínútu.

Með sigrinum jafnaði Birmingham lið Wrexham að stigum þar sem bæði eru með 13 stig. Wrexham er á toppnum og Birmingham er í öðru sæti. Charlton Athletic er einnig með 13 stig í þriðja sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert