Kristian sá þriðji verðmætasti

Kristian Nökkvi Hlynsson í leik með íslenska landsliðinu.
Kristian Nökkvi Hlynsson í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Alex Nicodim

Kristian Nökkvi Hlynsson, landsliðsmaðurinn ungi hjá Ajax, er þriðji verðmætasti ungi leikmaður hollensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu.

Þetta er samkvæmt samantekt CIES Football Observatory, knattspyrnuvefs sem einbeitir sér að alls kyns rannsóknum í knattspyrnunni.

Jorrel Hato, 18 ára varnarmaður sem er samherji hans hjá Ajax, er langverðmætasti leikmaðurinn 21 árs og yngri í deildinni samkvæmt CIES, en hann er metinn á 45,2 milljónir evra.

Ruben Van Bommel, tvítugur sóknarmaður hjá AZ Alkmaar, er annar í röðinni, metinn á 16,1 milljónir evra.

Kristian Nökkvi, sem er sóknarsinnaður miðjumaður, er síðan þriðji, rétt á eftir honum, og metinn á 15,9 milljónir evra.

Síðan kemur Ibrahim Osman, 19 ára sóknarmaður Feyenoord frá Gana, metinn á 13 milljónir evra.

Fimmti er Paxten Aaronson, 21 árs bandarískur miðjumaður hjá Utrecht, sem er metinn á 11,8 milljónir evra.

Kristian, sem varð tvítugur í janúar, hefur verið í röðum Ajax í fjögur ár. Hann vann sér sæti í aðalliði félagsins á síðasta tímabili og skoraði þá sjö mörk í 25 leikjum í úrvalsdeildinni.

Kristian hefur þá spilað tvo leiki sem Ajax hefur leikið í deildinni á þessu tímabili og skorað eitt mark. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert