Nýtt „Galacticos“-lið Real Madrid

Fögnuður eftir sigur Real Madrid í Ofurbikar Evrópu.
Fögnuður eftir sigur Real Madrid í Ofurbikar Evrópu. AFP/Sergei Gapon

Evrópumeistaralið Real Madrid er gríðarlega vel mannað og er farið að minna á stjörnumprýtt lið félagsins í kringum aldamótin þegar stefna félagsins var að kaupa stærstu stjörnur heims.

Luis Figo, Zinedine Zidane, Ronaldo og David Beckham voru keyptir og mynduðu ásamt Roberto Carlos, Iker Casillas og Raúl og fleiri leikmönnum gríðarlega sterkt lið.

Á þeim tíma var Real Madrid ríkasta knattspyrnulið heims en nú hefur félaginu tekist að byggja upp stórveldi án þess að borga mest fyrir félagaskipti leikmanna.

Í dag hefur Real Madrid ekki sömu yfirburði fjárhagslega þar sem enska úrvalsdeildin er stærsta deild heims og stóru liðin þar í landi geta keppt um bestu leikmennina. Í stað þess að kaupa dýrustu leikmennina í öll hólf hefur stefnan verið að kaupa efnilegustu leikmenn heims og þjálfa þá upp.

Kylian Mbappe og Jude Bellingham.
Kylian Mbappe og Jude Bellingham. AFP/Pierre-Philippe Marcou

Yfirnjósnarinn fær mikið hrós

Vinicius Junior, Arda Guler og Eduardo Camavinga komu átján ára gamlir til Real. Aurelien Tchouameni var 22 tveggja ára og Endrick var keyptur sextán ára gamall til félagins.

Stórstjarnan Jude Bellingham var einungis nítján ára þegar Real Madrid keypti hann frá Borussia Dortmund en allt eru þetta stór nöfn í heiminum í dag og hafa viðhaldið velgengni félagsins í Meistaradeildinni.

Yfirnjósnari Real Madrid, Juni Calafat, er maðurinn á bak við að velja leikmennina sem félagið kaupir og fær hann mikið hrós í áhugaverðri umfjöllun BBC um samsetningu leikmannahóps Real Madrid.

Kaup félagsins á Kylian Mbappe í sumar hafa gert það að verkum að flestir veðbankar spá því að spænsku risarnir verji Meistaradeildartitilinn í vor.

Vinicius Junior.
Vinicius Junior. AFP/Thomas Coex
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert