Sparkspekingurinn Kenneth Perez gefur lítið fyrir hugmyndafræði Robin van Persie eftir 9:1-tap Heerenveen undir stjórn hollenska þjálfarans gegn AZ Alkmaar í fjórða leik van Persie á þjálfaraferlinum.
„Hann er umdeildur. Stundum hagar hann sér eins og yngriflokka þjálfari þar sem úrslitin skipta minna máli en verkferlarnir. Þetta er atvinnumennska og úrslitin skipta miklu máli,“ sagði Perez í starfi sínu sem sérfræðingur um hollensku deildina fyrir ESPN.
„Van Persie er sannfærður um að haldi hann áfram að þróa sinn leikstíl muni úrslitin fylgja en ég efast um það. Hans leikaðferð hentar ekki leikmönnunum sem hann er með í hópnum hjá sér,“ bætti Perez við.
Að mati Perez þurfa hægfara varnarmenn van Persie að standa of framarlega á vellinum og að auki hafi þeir ekki tæknina til að spila boltanum út úr vörninni á þann máta sem van Persie biður þá um.
Staðan í leiknum var 2:1 í hálfleik en Alkmaar gekk á lagið í síðari hálfleik og skoraði sjö mörk gegn engu frá leikmönnum Heerenveen.