David Raya, markvörður Arsenal, ræddi við markmannsþjálfara liðsins áður en hann varði vítaspyrnu og í kjölfarið frákastið í markalausu jafntefli gegn Atalanta í fyrstu umferð Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í gærkvöldi.
Raya varði vítaspyrnu frá Mateo Retegui þegar hann valdi rétt horn og varði svo á einhvern ótrúlegan hátt þegar Retegui náði frákastinu og skallaði að marki.
Nokkurn tíma tók fyrir dómara leiksins að ákveða hvort um vítaspyrnu væri að ræða og gafst Raya þá tækifæri til þess að ræða við landa sinn frá Spáni, Inaki Cana, markmannsþjálfara Arsenal.
„Ég vildi ræða við hann til þess að fá skýrari sýn á hvað ég ætti og ætti ekki að gera. Það tók tímann sinn að taka ákvörðun um hvort ætti að dæma vítaspyrnu,“ sagði Raya í samtali við TNT Sports eftir leikinn í gær.