Norski knattspyrnumaðurinn Ole Sæter, leikmaður Rosenborg, kveðst hafa hafnað tilboði frá ísraelska félaginu Maccabi Haifa þar sem hann eigi erfitt með að spila í landi eins og Ísrael.
Þrátt fyrir að segja það ekki berum orðum vísar Sæter þar eflaust til átakanna á Gasa-svæðinu í Palestínu og í Líbanon.
„Ég vil enga blóðpeninga inn á reikninginn minn. Það væri martröð. Þetta var tilboð sem hefði gert mig fyllilega fjárhagslega sjálfstæðan.
Þetta er þjóð hvers siðferði og gildi endurspegla ekki mín eigin. Þannig er það. Það gengur ekki fyrir mig að spila í landi sem hegðar sér með þessum hætti,“ sagði Sæter í samtali við norsku sjónvarpsstöðina TV2.