Ævisaga Sven-Göran Eriksson, fyrrum landsliðsþjálfara Englands í fótbolta, kom út nú á dögunum skömmu eftir dauða Svíans. Í bókinni segir Eriksson frá því þegar hann hitti Boris Johnson í fyrsta skipti.
„Þvílíkur hálfviti, hugsaði ég. Hann hagaði sér eins og fífl, eins og það væri ekki allt á sínum stað í höfðinu á honum. Tveimur árum síðar varð hann borgastjóri London og síðar forsætisráðherra Bretlands“, voru fyrstu viðbrögð Eriksson þegar hann hitti Johnson.
Eriksson þjálfaði þá enska landsliðið og Johnson var þingmaður fyrir breska íhaldsflokkinn.
„Ég horfði á hann og tók strax eftir hárgreiðslunni. Hann vissi nákvæmlega ekki neitt um fótbolta, ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta var líklega fyrsti fótboltaleikurinn sem hann sá“, sagði Eriksson í ævisögunni sem ber nafnið A Beautiful Game.
„Við Boris Johnson erum ekki líkir á nokkurn hátt en okkur tókst báðum að hrista upp í Bretlandseyjum á sinn hvorn háttinn“, segir Eriksson en ástarsambönd þjálfarans voru vinsæll fréttamatur gulu pressunnar.
Johnson lét af störfum sem forsætisráðherra eftir að upp komst um brot hans á reglum ríkisstjórnar hans vegna Covid 19.