Freyr: Særði mig mjög mikið

Freyr Alexandersson stýrir æfingu Kortrijk.
Freyr Alexandersson stýrir æfingu Kortrijk. Ljósmynd/@kvkofficieel

Freyr Alexandersson þjálfari belgíska knattspyrnuliðsins Kortrijk var verulega ósáttur við þá belgísku fjölmiðla sem fjölluðu um að hann hefði tilkynnt sig veikan hjá belgíska félaginu til að fara í viðræður við Cardiff, sem leikur í ensku B-deildinni.

Um rangan fréttaflutning var að ræða.

Freyr tilkynnti sig vissulega veikan, enda var hann veikur og hafði það ekkert með Cardiff að gera.

„Þetta særði mig mjög mikið. Við verðum að vinna saman af heiðarleika og með traust að leiðarljósi. Ef þú ert að segja frá fréttum verður þú að athuga þær,“ sagði Freyr á blaðamannafundi í dag.

„Það hafði enginn samband við mig. Ef annað félag hefði haft samband, myndi ég ekki ljúga. Við gerum öll mistök og þá eigum við að geta sagt fyrirgefðu.“

Í kjölfarið báðust tveir belgískir blaðamenn afsökunar á röngum fréttaflutningi.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert