Vill láta refsa eigin stuðningsmönnum

Diego Simeone biðlar til stuðningsmanna að hætta að grýta Thibaut …
Diego Simeone biðlar til stuðningsmanna að hætta að grýta Thibaut Courtois. AFP/Javier Soriano

Diego Simeone, þjálfari Atletico Madrid, vill sjá félagið refsa þeim stuðningsmönnum sem köstuðu kveikjurum og öðru lauslegu inn á völlinn í leik Atletico gegn Real Madrid í gær.

Stöðva þurfti leikinn þar sem aðskotahlutum rigndi úr stúkunni í átt að markverði Real, Thibaut Courtois, en Belginn stóri lék áður fyrir Atletico.

„Þeir einstaklingar sem áttu hlut að máli eiga skilið að vera refsað af félaginu. Við þurfum ekki á þessum aðilum að halda. Við þurfum þá sem styðja við bakið á okkur“ sagði Argentínumaðurinn Simeone.

Það sauð upp úr í stúkunni þegar Eder Militao kom Real Madrid yfir á 63. mínútu og Simeone og fyrirliði Atletico, miðjumaðurinn Koke, reyndu að róa stuðningsmenn. Vallarþulurinn tilkynnti áhorfendum að leikurinn yrði flautaður af myndu áhorfendur ekki hætta að grýta leikmenn Real.

Leikurinn hélt þó áfram og Angel Correa jafnaði metin í 1:1 í uppbótartíma en þar við sat.

Thibaut Courtois bregst við hegðun stuðningsmanna Atletico Madrid.
Thibaut Courtois bregst við hegðun stuðningsmanna Atletico Madrid. AFP/Oscar Del Pozo
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert