Barcelona skoraði fimm og City fjögur

Robert Lewandowski og Inigo Martinez skoruðu báðir fyrir Barcelona.
Robert Lewandowski og Inigo Martinez skoruðu báðir fyrir Barcelona. AFP/Josep Lago

Spænska stórliðið Barcelona vann sinn fyrsta sigur í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld er liðið fór illa með Young Boys frá Sviss á heimavelli, 5:0.

Robert Lewandowski skoraði tvö mörk fyrir Barcelona og þeir Raphinha og Inigo Martínez komust einnig á blað. Fimmta og síðasta markið var sjálfsmark.

Englandsmeistarar Manchester City unnu einnig sinn fyrsta leik er liðið heimsótti Slovan Bratislava til slóvakísku höfuðborgarinnar. Urðu lokatölur 4:0.

Ilkay Gündogan og Phil Foden komu City í 2:0 í fyrri hálfleik og þeir Erling Haaland og James McAtee bættu við í seinni hálfleik.

Phil Foden fagnar marki sínu í Slóvakíu.
Phil Foden fagnar marki sínu í Slóvakíu. AFP/Joe Klamar

Þýska liðið Dortmund gerði sér lítið fyrir og gjörsigraði Celtic frá Skotlandi, 7:1, á heimavelli. Karim Adeyemi skoraði þrennu fyrir Dortmund og Serhou Guirassy gerði tvö. Emre Can og Felix Mnecha komust einnig á blað. Daizen Maeda skoraði mark Celtic.

Ítalska liðið Inter vann sannfærandi sigur á Rauðu stjörnunni frá Serbíu á heimavelli. Hakan Calhanoglu, Marco Arnautovic, Lautaro Martínez og Mehdi Taremi gerðu mörkin.

Þýskalandsmeistarar Leverkusen sigruðu AC Milan á heimavelli, 1:0. Victor Boniface skoraði sigurmarkið á 51. mínútu.

Loks skildu PSV frá Hollandi og Sporting frá Portúgal jöfn, 1:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka