Útskrifaður af sjúkrahúsi eftir yfirlið

Franski knattspyrnumaðurinn Mo Sylla, miðjumaður Dundee FC í skosku úrvalsdeildinni, hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi eftir að leið yfir hann í hálfleik í leik liðsins gegn Aberdeen um liðna helgi.

Sylla lék fyrri hálfleikinn fyrir Dundee á laugardag en leið yfir hann í búningsherbergi liðsins í hálfleik. Hlaut hann aðhlynningu þegar í stað og var með meðvitund þegar hann var fluttur á sjúkrahús.

Í tilkynningu frá Dundee segir að Sylla hafi verið útskrifaður af sjúkrahúsinu í gær og kemur fram að talið sé að Frakkinn hafi fengið bráðaofnæmiskast.

Fylgst verður náið með líðan Sylla áður en hann fær grænt ljós á að snúa aftur til æfinga og keppni með Dundee.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert