Eiður Smári Guðjohnsen var á meðal áhorfenda er enska liðið Chelsea mætti Gent frá Belgíu á heimavelli sínum í Sambandsdeild Evrópu í fótbolta í kvöld.
Andri Lucas Guðjohnsen, miðjusonur Eiðs, var í byrjunarliði Gent og lék fyrstu 64. mínúturnar. Lagði hann upp fyrra mark liðsins í 4:2-tapi.
Eiður var leikmaður Chelsea þegar Andri kom í heiminn. Með Eiði var elsti sonur hans Sveinn Aron Guðjohnsen.
Sverrir Ingi Ingason lék allan leikinn fyrir Panathinaikos í jafntefli við Borac Banja Luka frá Bosníu á útivelli, 1:1. Hörður Björgvin Magnússon var ekki með, en hann hefur ekkert spilað undanfarið ár vegna meiðsla.
Albert Guðmundsson kom inn á sem varamaður hjá Fiorentina er liðið lagði TNS frá Wales, 2:0. Guðmundur Þórarinsson lék allan leikinn með Noah, sem sigraði Mlada Boleslav 2:0.
Rúnar Alex Rúnarsson var allan tímann á bekknum hjá FC Kaupmannahöfn er liðið tapaði á heimavelli fyrir Jagiellonia frá Póllandi, 2:1.
Eidur Gudjohnsen watches on as his son Andri lines up for Gent against his old club Chelsea 👏🔵 pic.twitter.com/28sbQeOwNi
— Football on TNT Sports (@footballontnt) October 3, 2024