Spænski knattspyrnumaðurinn Martin Zubimendi hafnaði enska knattspyrnufélaginu Liverpool í sumar og ákvað að halda áfram hjá Real Sociedad í heimalandinu, þar sem hann er liðsfélagi Orra Steins Óskarssonar.
Zubimendi, sem hefur leikið með Sociedad allan ferilinn og tólf leiki fyrir spænska landsliðið, ákvað frekar að vera áfram hjá spænska félaginu í eitt tímabil til viðbótar hið minnsta.
„Besta ákvörðunin fyrir mig á þessum tímapunkti var að vera áfram hjá Sociedad að sinni, þar sem mér líður vel. Auðvitað sé ég ekki eftir þeirri ákvörðun.
Ég ætla ekki að halda því fram þegar tímabilið er nýbyrjað. Við getum náð langt hér,“ sagði hann við Noticias De Gipuzkoa í heimalandinu.