Lionel Messi var samur við sig þegar lið hans Inter Miami lagði Columbus Crew að velli, 3:2, í toppslag Austurdeildar bandarísku MLS-deildarinnar í knattspyrnu í nótt.
Inter Miami er á toppi deildarinnar með 68 stig, 11 stigum fyrir ofan Columbus Crew sem á leik til góða.
Messi skoraði tvívegis fyrir Inter Miami í fyrri hálfleik og sá til þess að staðan var 2:0 að honum loknum.
Heimamenn í Columbus Crew minnkuðu muninn í 2:1 snemma í síðari hálfleik áður en Luis Suárez skoraði þriðja mark gestanna frá Miami.
Cucho Hernández minnkaði muninn fyrir Columbus með marki úr vítaspyrnu og fékk annað tækifæri sex mínútum fyrir leikslok en þá brást honum bogalistin á vítapunktinum.
Nökkvi Þeyr Þórisson kom inn á sem varamaður á 79. mínútu hjá St. Louis City þegar liðið tapaði 1:0 fyrir Los Angeles FC á útivelli í Vesturdeildinni.
Dagur Dan Þórhallsson lék ekki með Orlando City vegna meiðsla í 2:1-sigri liðsins á Philadelphia Union í Austurdeildinni.