Alþjóðaíþróttadómstóllinn, CAS, hefur stytt fjögurra ára bannið sem franski knattspyrnumaðurinn Paul Pogba var úrskurðaður í byrjun árs niður í 18 mánuði.
Pogba áfrýjaði fjögurra ára banninu sem ítalska lyfjaeftirlitið úrskurðaði hann í, eftir að umframmagn af karlhormóninu testosteróni fannst í blóði hans. Pogba er leikmaður Juventus á Ítalíu.
Miðjumanninum er núna frjálst að leika með liðinu frá og með mars á næsta ári.
Hann á að baki tæplega 300 deildaleiki með Juventus og Manchester United á ferlinum, ásamt því að leika 91 landsleik fyrir Frakkland þar sem hann varð heimsmeistari árið 2018.