Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir sína menn staðráðna í að halda áfram að berjast eftir slæma byrjun á tímabilinu.
Man. United er í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar eftir sex leiki og hefur byrjað Evrópudeildina á því að gera tvö jafntefli.
„Við munum komast á þann stað sem við viljum vera á. Ekki dæma okkur á þessu augnabliki, dæmið okkur í lok tímabilsins.
Við erum ennþá í ferli og munum bæta okkur. Við höfum komist í úrslitaleiki tvö tímabil í röð. Við munum halda áfram að berjast,“ sagði ten Hag í samtali við TNT Sports eftir jafntefli gegn Porto í Evrópudeildinni í gærkvöldi.
Leiknum lauk 3:3 og er það í enn eitt skiptið sem lærisveinar ten Hags fá á sig þrjú mörk frá því að hann tók við.
„Þið sjáið andann og tengslin á milli starfsfólksins og liðsins. Leikmennirnir standa saman, þeir eru með gott hugarfar og vilja ná árangri. Við búum yfir góðu hugarfari en í sumum þáttum varnarleiksins verðum við að stíga upp.
Við héldum markinu hreinu þrisvar sinnum fyrir ekki svo löngu síðan þannig að við getum varist mjög vel en við verðum að koma okkur aftur í þann vana,“ sagði Hollendingurinn einnig.