Ítalska stórliðið Juventus tapaði mikilvægum stigum á heimavelli í hádegisleik dagsins í ítölsku A-deildinni í fótbolta í dag þegar liðið gerði jafntefli við Cagliari, 1:1.
Dusan Vlahovic kom Juventus yfir með marki úr vítaspyrnu á 15. mínútu leiksins og virtust leikmenn Cagliari ekki vera líklegir til afreka því Juventus liðið sótti án afláts og virtist aðeins vera tímaspursmál hvenær annað markið kæmi.
Heimamönnum tókst þó ekki að bæta við marki og á 88. mínútu leiksins jafnaði Rúmeninn Razvan Martin metin fyrir gestina með marki úr vítaspyrnu eftir að Douglas Luiz braut á Roberto Piccoli.
Francisco Conceicao fékk síðan rautt spjald á 89. mínútu þegar hann fékk sitt annað gula spjald fyrir leikaraskap.
Eftir leikinn er Juventus í þriðja sæti deildarinnar með 13 stig eftir sjö leiki en Cagliari er í 15. sæti með 6 stig eftir sjö leiki.