Hollenska knattspyrnugoðsögnin Johan Neeskens er látinn, 73 ára að aldri. Hann var bráðkvaddur í Alsír í gær, þar sem hann var á þjálfaranámskeiði á vegum hollenska knattspyrnusambandsins.
Neeskens lék tvo úrslitaleiki á HM með Hollandi, árin 1974 og 1978 og skoraði í gegn Vestur-Þýskalandi í fyrri leiknum. Því miður fyrir Neeskens og félaga töpuðust báðir úrslitaleikirnir, en sá síðari var gegn Argentínu.
Miðjumaðurinn lék yfir 100 deildarleiki fyrir bæði Ajax og Barcelona og varð Evrópumeistari í þrígang með hollenska liðinu. Hann lék 49 landsleiki fyrir Holland og skoraði í þeim 17 mörk.
Eftir leikmannaferilinn fór Neeskens í þjálfun og var m.a. aðstoðarþjálfari hollenska og ástralska landsliðsins og aðstoðarþjálfari Barcelona.