Hættur eftir að stjórnin vildi ráða liðsvali

Claude Makélélé.
Claude Makélélé. AFP

Claude Makélélé, fyrrverandi leikmaður Chelsea og Real Madríd, hefur sagt starfi sínu sem knattspyrnustjóri Asteras Tripolis í Grikklandi lausu eftir að hafa aðeins stýrt liðinu í þremur leikjum.

Makélélé tók við Asteras um miðjan september og gerði liðið tvö jafntefli og vann einn leik í grísku úrvalsdeildinni undir hans stjórn, þar sem liðið er í sjöunda sæti af 14 liðum.

Gríski miðillinn EPT greindi frá því að ástæðan fyrir því að Makélélé hafi sagt starfi sínu lausu væri ólík hugmyndafræði hans og þeirra sem stjórna félaginu.

Í samtali við London World útskýrði Makélélé hins vegar að afskiptasemi þeirra sem stjórna félaginu hafi orðið til þess að hann hafi fundið sig knúinn til þess að hætta.

Ég elska þetta starf en ég get ekki samþykkt það þegar fólk truflar mig og segir mér hvað ég megi og megi ekki gera. Mér var lofað fullri stjórn á liðinu. Það átti að vera mín ákvörðun hverjir spiluðu og hverjir ekki.

Í síðasta leik kröfðust þeir þess að lykilmaður liðsins, Darnell Eric Bile, yrði settur á varamannabekkinn. Þessi leikmaður er með lág áhugamannalaun en hann er besti leikmaður liðsins.

Ég setti hann inn síðustu 20 mínúturnar og við unnum leikinn. En þeir vildu ekki að hann spilaði. Þeir töldu sig geta stjórnað því hvort hann myndi spila því hann var ekki búinn að skrifa undir nýjan samning. Ég notaði hann vegna þeirra gæða sem hann býr yfir,” sagði Makélélé.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert