Wayne Rooney, knattspyrnustjóri Plymouth í ensku B-deildinni, hefur verið kærður af enska knattspyrnusambandinu vegna hátternis síns þegar hann fékk beint rautt spjald í leik liðsins gegn Blackburn Rovers um liðna helgi.
Rooney er gefið að sök að hafa hagað sér með óviðeigandi hætti og notað móðgandi orð í garð dómara leiksins fyrir og eftir að honum var sýnt rautt spjald.
Auk þess sneri Rooney aftur á völlinn að leik loknum þrátt fyrir að hafa fengið reisupassann, sem enska sambandið telur óviðeigandi.
Enski stjórinn var ósáttur við jöfnunarmark Blackburn í leiknum sem kom á 86. mínútu þar sem hann taldi brot hafa átt sér stað í aðdragandanum. Plymouth skoraði svo sigurmark á sjöundu mínútu uppbótartíma og vann leikinn 2:1.
Rooney hefur til 15. október til þess að bregðast við kærunni.