Segir að Heimir gæti misst starfið

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. AFP/Paul Faith

Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Richard Dunne er á því að Heimir Hallgrímsson gæti misst vinnuna sem landsliðsþjálfari karlaliðs Írlands síðar í mánuðinum, ef leikirnir gegn Finnlandi og Grikklandi næstu daga fara illa.

Írland mætir Finnlandi og Grikklandi á útivelli í Þjóðadeildinni á næstu dögum og Dunne hefur áhyggjur af starfsöryggi Heimis ef leikirnir tapast. Aðeins eru þrír mánuðir síðan Heimir var ráðinn í starfið.

„Ég held Heimir Hallgrímsson finni nú þegar fyrir pressunni sem fylgir þessu starfi. Ef Írland vinnur hvorki Finnland né Grikkland tel ég mögulegt að nýr maður verði fenginn inn. Það kæmi mér á óvart ef John O‘Shea væri ekki tilbúinn í að taka við,“ sagði Dunne við BetVictor.

Dunne lék á sínum tíma 80 leiki fyrir írska liðið og lék með Everton, Manchester City, Aston Villa og QPR sömuleiðis.

Írska liðið hefur leikið tvo leiki síðan Heimir tók við og tapað þeim báðum 2:0, á heimavelli gegn Englandi og Grikklandi í Þjóðadeildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert