Fyrrverandi leikmaður ÍBV fannst látinn

George Baldock, rauðklæddur, í baráttu við FH-ingana Frey Bjarnason og …
George Baldock, rauðklæddur, í baráttu við FH-ingana Frey Bjarnason og Pétur Viðarsson í úrvalsdeildarleik með ÍBV árið 2012. mbl.is/Golli

Gríski knattspyrnumaðurinn George Baldock, sem fæddist og ólst upp á Englandi, er látinn aðeins 31 árs. Baldock fannst látinn í sundlaug á heimili sínu í Glyfada í Aþenu í dag.

Hann gekk til liðs við Panathinaikos í sumar eftir sjö ára dvöl hjá Sheffield United þar sem Baldock lék til að mynda þrjú tímabil í ensku úrvalsdeildinni.

Hjá Panathinaikos var hann samherji Sverris Inga Ingasonar og Harðar Björgvins Magnússonar og lék nokkrum sinnum með þeim fyrrnefnda en Hörður er að jafna sig á meiðslum.

Sumarið 2012 lék Baldock með ÍBV í úrvalsdeildinni hér á landi að láni frá Milton Keynes Dons og stóð sig einkar vel.

Alls lék hann tólf A-landsleiki fyrir gríska landsliðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert