Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði Bayern München og íslenska landsliðsins í knattspyrnu, var á skotskónum þegar þýska stórliðið lagði enska stórliðið Arsenal örugglega að velli, 5:2, í fyrstu umferð C-riðils Meistaradeildarinnar í kvöld.
Glódís Perla skoraði annað mark leiksins þegar hún jafnaði metin í 1:1 skömmu áður en flautað var til leikhlés.
Eins og hennar er von og vísa var um glæsilegt skallamark að ræða en skalli Glódísar Perlu vinstra megin úr vítateignum fór í þverslána, nánast í samskeytin, og í netið eftir góða fyrirgjöf ensku landsliðskonunnar Georgiu Stanway
Í síðari hálfleik skoraði danska markadrottningin Pernille Harder þrennu fyrir Bæjara og Sydney Lohmann einu sinni.
Mariona Caldentey og Laia Codina skoruðu mörk Arsenal.