Heimir aldrei séð svona stuðning áður

Heimir Hallgrímsson fagnar í leikslok.
Heimir Hallgrímsson fagnar í leikslok. Ljósmynd/Írska knattspyrnusambandið

Heimir Hallgrímsson, þjálfari karlaliðs Írlands í knattspyrnu, hrósaði stuðningsmönnum liðsins í hástert eftir að þeir fjölmenntu til Helsinki þar sem Írland vann sinn fyrsta leik undir stjórn Heimis í gærkvöldi.

Lokatölur urðu 2:1, Írum í vil, eftir að Finnar höfðu náð forystunni í fyrri hálfleik.

„Ég hef aldrei upplifað það áður að sjá þúsund stuðningsmenn ferðast á útileik, láta svona vel í sér heyra og fagna eins mikið og þeir gerðu. Ég hef aldrei séð þetta áður. Ég elska þetta, ég alveg dýrka þetta og virði þetta fólk heilshugar.

Þessir stuðningsmenn eiga í það minnsta skilið lófatak frá mér og þakkir fyrir stuðninginn því við fundum fyrir orkunni sem kom úr stúkunni þegar við vorum að sækja, þó það væri áður en við vorum búnir að skora jöfnunarmarkið.

Við fundum að þeir væru ánægðir með það sem vorum að gera áður en við skoruðum og að þeir væru enn ánægðari eftir að við gerðum það,“ sagði Heimir á fréttamannafundi eftir sigurinn í gærkvöldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert