Heimir Hallgrímsson fagnaði sínum fyrsta sigri sem þjálfari írska karlalandsliðsins í fótbolta í gærkvöldi er liðið vann Finnland, 2:1, á útivelli í Þjóðadeildinni.
Það byrjaði ekki bærilega hjá heimi í starfinu því liðið tapaði fyrir Englandi og Grikklandi í tveimur fyrstu leikjum hans á hliðarlínunni.
Spáðu því einhverjir að Heimir myndi staldra stutt við og yrði rekinn með slæmum úrslitum í yfirstandandi verkefni. Fyrrverandi leikmaðurinn Pat Dolan er ósáttur við þá umræðu.
„Þessi sigur sýnir hvað Heimir er búinn að vinna vel á bak við tjöldin,“ skrifaði Dolan í Irish Mirror. „Ég er svo ánægður fyrir hans hönd, eftir alla þessa gagnrýni,“ bætti sá írski við og hélt áfram:
„Heimir kom inn í erfiða stöðu og vonandi gengur þetta upp hjá honum. Sumir þeirra sem hafa ráðist á þennan vinalega íslenska náunga eru heiglar. Hann er búinn að vera í þessu starfi í fimm mínútur, gefum honum smá tækifæri,“ skrifaði Pat Dolan.