Tveir leikir fóru fram í 4. riðli A-deildar Þjóðadeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld. Spánn hafði betur gegn Danmörku, 1:0, og Serbía vann 2:0-sigur gegn Sviss.
Sigurmark Spánverja kom á 79. mínútu en það var Martin Zubimendi sem skoraði það.
Serbar komust yfir í uppbótartíma fyrri hálfleiks þegar Nico Elvedi varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Aleksandar Mitrovic skoraði síðan annað mark Serba á 61. Mínútu.
Spánn er á toppnum í riðlinum með sjö stig. Danmörk í öðru sæti með sex stig, Serbía í þriðja með fjögur stig og Sviss síðan á botninum með núll stig.
Portúgal lagði Pólland, 3:1, í 1. riðli A-deildar Þjóðadeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld.
Fyrsta mark leiksins kom á 26. mínútu og var það Bernardo Silva sem skoraði það fyrir Portúgal. Cristiano Ronaldo tvöfaldaði síðan forystu Portúgals á 37. mínútu.
Á 78. mínútu minnkaði Piotr Zielinski muninn fyrir Pólland. Jan Bednarek, varnarmaður Póllands, setti boltann í eigið net á 88. mínútu og þar með gulltryggði sigur Portúgals.
Portúgal er á toppnum í riðlinu með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Pólland er í þriðja sæti með þrjú stig.