„Auðvitað var sárt að tapa báðum þessum leikjum en þegar ég horfi um öxl stendur upp úr að það var frábært afrek að leika tvívegis til úrslita á HM.“
Þetta sagði hollenska knattspyrnugoðsögnin Johan Neeskens í samtali við Morgunblaðið fyrir fimm árum, spurður um úrslitaleikina tvo sem hann lék á HM, gegn Vestur-Þjóðverjum 1974 og Argentínumönnum fjórum árum síðar.
„Við lékum án efa bestu knattspyrnuna, sérstaklega 1974, og unnum hug og hjarta heimsbyggðarinnar. Það er gömul saga og ný að í knattspyrnu vinna bestu liðin ekki alltaf.“
– Eruð þið jafnvel besta liðið sem aldrei varð heimsmeistari?
„Hugsanlega. Fólk naut þess alltént að horfa á okkur spila og núna, meira en fjörutíu árum síðar, muna margir eftir okkur. Það segir sína sögu. Það á kannski sérstaklega við um liðið 1974; tveir lykilmenn, Cruyff og Willem van Hanegem, voru báðir hættir með landsliðinu 1978.“
Holland og Ísland mættust nokkrum sinnum á áttunda áratugnum og Neeskens kvaðst muna ágætlega eftir þeim viðureignum. „Best man ég eftir leiknum 1973. Hann fór 5:0,“ rifjaði hann upp og bætti svo sposkur við: „Fyrir okkur!“
„Þetta var auðvitað ójafn slagur. Getustig okkar í hámarki á þessum tíma en íslenska liðið nær alfarið skipað áhugamönnum. Við myndum aldrei sjá úrslit af þessu tagi í dag,“ sagði hann, eins og til að biðjast velvirðingar á glæpnum.
Johans Neeskens er minnst í lengra máli í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins en hann féll frá á dögunum, 73 ára að aldri.