Heimir tapaði - Noregur fékk skell

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. AFP/Paul Faith

Írska landsliðið, undir stjórn Heimis Hallgrímssonar, mátti þola 2:0-tap gegn Grikklandi í 2. riðli B-deildar Þjóðadeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld.

Fyrirliðinn Anastasios Bakasetas kom Grikklandi yfir á 48. mínútu. Petro Mantalos innsiglaði síðan sigur Grikklands í uppbótartíma með marki.

Grikkland er á toppi riðilsins með tólf stig eftir fjóra leiki en Írland í þriðja sæti með þrjú stig.

Stórt tap Norðmanna

Noregur fékk skell gegn Austurríki, 5:1, í 3. riðli B-deildar Þjóðadeildar Evrópu í fótbolta í kvöld.

Marko Arnautovic kom Austurríki yfir snemma í leiknum. Alexander Sørloth jafnaði metin fyrir Noreg á 39. mínútu og var allt jafnt í hálfleik, 1:1.

Austurríki tók aftur forystuna á 49. mínútu þegar Arnautovic skoraði úr vítaspyrnu. Philipp Lienhart skoraði síðan þriðja mark Austurríkismanna á 58. mínútu.

Stefan Posch skoraði fjórða mark Austurríkis á 62. mínútu. Það var síðan Michael Gregoritsch sem setti síðasta nagla í kistu Norðmanna með marki á 71. mínútu.

Austurríki er efst í riðlinum með sjö stig eftir fjóra leiki. Noregur er með jafn mörg stig í þriðja sæti.

Jafnt í Færeyjum

Færeyjar og Lettland skildu jöfn, 1:1, í 4. riðli C-deildar Þjóðadeildar Evrópu í fótbolta í kvöld.

Færeyjar tóku forystuna á 40. mínútu og var það Hanus Sørensen sem skoraði það. Dario Sits jafnaði metin fyrir Lettland á 69. mínútu.

Gunnar Vatnhamar, leikmaður Víkings Reykjavíkur, spilaði allan leikinn fyrir Færeyjar. Brandur Hendriksson Olsen, fyrrverandi leikmaður FH, og René Shaki Joensen, fyrrverandi leikmaður Grindavíkur, byrjuðu einnig leikinn fyrir Færeyjar.

Færeyjar er í neðsta sæti riðilsins með þrjú stig en Lettland er í þriðja sæti með fjögur stig.

Erling Haaland í baráttunni í kvöld.
Erling Haaland í baráttunni í kvöld. AFP/Joe Klamar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert