Fyrrverandi knattspyrnumaðurinn Eiður Smári Guðjohnsen hefur mikla trú á syni sínum Andra Lucasi en viðurkennir að hafa ekki séð það fyrir sér að hann yrði knattspyrnumaður þegar sonurinn var ungur drengur.
„Ég gat ekki séð það fyrir mér að Andri yrði leikmaður þegar hann var krakki. Ég er ekki að vera neikvæður en hann var lágvaxinn, feitur lítill strákur sem labbaði um með bolta undir handleggnum!
Það var einungis þegar hann var sjö eða átta ára gamall sem ég áttaði mig á því að hann gæti orðið atvinnumaður. Hann tók stór skref í akademíunni hjá Espanyol þegar við bjuggum þar eftir að ég skipti til Barcelona,“ sagði Eiður Smári í samtali við enska miðilinn Mirror.
Hann telur Andra Lucas hafa allt til brunns að bera til þess að verða hinn fullkomni sóknarmaður.
„Andri hefur hæfileikana til þess að verða hinn fullkomni sóknarmaður. Þegar ég spilaði taldi ég mig aldrei vera fullkominn sóknarmann því þegar ég spilaði þurfti ég alltaf að hafa leikmann fyrir framan mig.
Andri þarf ekki á því að halda. Hann er hreinræktaður sóknarmaður sem reiðir sig á stuðning og kraft miðjumanna og vængmanna. Andri er sterkur í loftinu og miklu betri en pabbi sinn þar. Hann er leikinn þökk sé árunum sem hann varði í akademíum á Spáni og les leikinn vel.
Hann hefur allt til brunns að bera. Ég sé bara eina átt fyrir hann og það er upp á við. Ég segi þetta ekki sem faðir hans heldur sem leikgreinandi. Ég get séð að hann á alla möguleika á því að vaxa og taka stærri skref á ferli sínum,“ bætti Eiður Smári við.
Andri Lucas verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu sem tekur á móti Tyrklandi í B-deild Þjóðadeildar Evrópu í kvöld klukkan 18.45.