Enn fastir í Líbíu en fara brátt heim

William Troost-Ekong fagnar marki í leik með nígeríska landsliðinu.
William Troost-Ekong fagnar marki í leik með nígeríska landsliðinu. AFP/Issouf Sanogo

Nígeríska karlalandsliðið í knattspyrnu hefur verið fast á yfirgefnum flugvelli í Líbíu í um 18 klukkustundir en nú loks virðist vera að rofa til.

Fyrirliðinn William Troost-Ekong hefur fært umheiminum fregnir af ástandinu þar sem lendingarleyfi flugvélar sem flutti liðið til Líbíu var skyndilega dregið til baka.

„Máttur samfélagsmiðla. Svo virðist sem verið sé að fylla vélina af eldsneyti og við ættum að halda af stað til Nígeríu innan skamms. Takk allir fyrir stuðninginn!

Ég ítreka að við myndum aldrei koma svona fram við gestaþjóð fyrir landsleik. Mistök eiga sér stað, frestanir eiga sér stað. En aldrei viljandi!“ skrifaði Troost-Ekong á X-aðgangi sínum fyrir um hálftíma síðan.

Eldsneyti til staðar allan tímann

Í morgun greindi hann frá því að nígeríska hópnum væri haldið í gíslingu á yfirgefnum flugvelli án matar, drykkjar og símasambands. Í millitíðinni sagði Troost-Ekong frá því að eldsneyti væri til staðar á flugvellinum og að því hefði verið hægt að veita leyfi fyrir því að fljúga til baka mun fyrr.

„Má ég koma ykkur á óvart? Flugstjórinn var að segja okkur að eldsneyti hafi verið til staðar á þessum flugvelli allan tímann. Þau hefðu getað sleppt okkur lausum en hafa ekki veitt okkur leyfi.

Getið þið ímyndað okkur? Hversu lengi höfðu þau áætlað að halda okkur í gíslingu hér? Við erum enn að bíða,“ skrifaði hann fyrir rúmum klukkutíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert