Ungstirnið sent heim

Lamine Yamal í leik Spánar gegn Danmörku.
Lamine Yamal í leik Spánar gegn Danmörku. AFP/José Jordán

Ungstirnið Lamine Yamal verður ekki með Evrópumeisturum Spánar þegar liðið mætir Serbíu í A-deild Þjóðadeildar Evrópu í knattspyrnu annað kvöld til þess að fyrirbyggja frekari meiðsli.

Yamal er aðeins 17 ára gamall en á þegar 17 A-landsleiki fyrir Spán, þar sem hann er lykilmaður líkt og hjá Barcelona.

Í 1:0-sigri Spánar á Danmörku í Þjóðadeildinni á laugardag haltraði Yamal af velli eftir að hafa verið tæklaður hressilega nokkrum sinnum.

Hann fór í myndatöku sem leiddi í ljós smávægileg vöðvameiðsli og samkvæmt tilkynningu frá spænska knattspyrnusambandinu hefur verið ákveðið að senda Yamal heim til Barcelona þess að koma í veg fyrir möguleikann á alvarlegri meiðslum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert